fimmtudagur, júlí 26, 2007

Sól, sól, Seoul..


Tók ferjuna yfir Til Busan í Suður-Kóreu frá Hakata í Japan. Staldraði þar við í 2 daga og kom mér svo yfir til Seoul þar sem að ég er nú. Planið var að flýta fluginu mínu en gekk ekki eftir svo að ég sé fram á vikudvöl hér í Seoul og nágrenni. Hef heimsótt Panmunjeom og hlutlausa beltið við landamæri Norður-Kóreu. Þurfti að bóka ferð með ferðaskrifstofu Bandaríska hersins. Gaman að sjá Amerískar stærðir af fólki aftur eftir langa veru í Asíu.


Every highway that I go down
Seems to be longer than the last one i knew about,
Oh well


Arkaði á fjall með Filipseyjingi og Kanadabúa hérna í nágrenni Seoul en um 9km var að ræða. Ég get lofað að sá sem skrifaði um að þessi gönguleið væri bara miðlungs erfið, hefur ekki gengið hana sjálfur..

föstudagur, júlí 13, 2007

fjallaferð..


Ég heimsótti Nagasaki sem er þekkt fyrir að vera hin borgin sem fékk á sig kjarnorkusprengju, sú var einnig mun öflugri en Hiroshima sprengjan en ég hlífi ykkur við friðarboðskapnum, maður er orðinn alltof mjúkur eitthvað. Fylgir það því að mér finnst ég vera að fitna?

Er annars í borginni Beppu sem eru hálfgerðir Hveravellir þeirra Japana. Heimsótti Usuki í gær en hún kom hvað mest á óvart fyrir það að það var ekki rigning. Hér hefur ringt daglega síðustu vikuna.

Áætlun mín var að finna steingerðar Búdda styttur um 5-6 kílómetra frá bænum. Ég fékk handteiknað kort á lestarstöðinni ásamt að fá eitt ljótasta hjól sem ég hef séð. Sem betur fer er ég einn af fáum sem get haldið cool-inu á svona fararskjóta. Kortið var arfaslæmt og gerði ekkert gagn. Ég hjólaði því bara í átt til fjalla og líklega tugi kílómetra of mikið. En komst á leiðarenda með hjálp vegagerðamanna, hverjum hefði dottið það í hug!


Stelpurnar í móttökunni sögðu mér að á morgun er spáð að fellibylur gangi hér yfir. Ég mun því verða hér einn dag í viðbót til að upplifa það fjör.



mánudagur, júlí 09, 2007

Manhattan verkefnið..


Borgin Hiroshima er þekktust fyrir að vera heimsins fyrsta skotmark þar sem kjarnorkusprengja var notuð. Aðal ástæða þess að hún varð fyrir valinu, fyrir utan stærð hennar, var að hér var ekki talið að finna stríðsfanga í seinni heimstyrjöldinni. Einnig hafði ekki verið gerðar loftárásir á hana svo að auðvelt var fyrir Bandaríkjamenn að sjá mátt sprengjunnar sem þeir höfðu eytt 2 milljörðum USD ásamt að hafa 125.000 manns í vinnu við að hanna í yfir 3 ár. Svo gerðist það 6 ágúst 1945 að þessi stríðsglæpur var framinn, Enola Gay varpaði sprengjunni “little boy” sem olli því að 140.000 manns létu lífið. Það er álit manna að sprengjan breytti litlu nema að flýta fyrir uppgjöf Japana en þeir voru náttúrulega búnir að tapa stríðinu er að þessum tímapunkti kom.


Ég skoðaði Kjarnorkusprengju hvolfþaks bygginguna (a-bomb dome) sem er ein af fáum byggingum sem stóðu eftir sprenginguna. Flakkaði svo um friðargarðinn og endaði á að skoða friðarsafnið. Með S-21 safninu í Kambódíu þá er þetta átakalegasta safn sem ég hef skoðað.
Ég hef skoðað 4 aðrar borgir. Borgina Nara þar sem stærstu timburbyggingu heims er að finna ásamt að hafa skoðað Kyoto, Kobe og Himeji.





þriðjudagur, júlí 03, 2007

Sjálfsalar á hverju horni..


Hér fara heimilislausir úr skónum áður en þeir leggjast á bekkinn eða skríða inní kassann sinn. Jebb, ég er í Japan og maður verður sjálfkrafa svo kurteis, jafnvel kurteisari en ég var fyrir og hneigi mig fyrir öllum sem ég mæti. Verðlag á matvörum er svona rúmlega helmingi ódýrara en á Íslandi svo þau eiga langt í land með að ná okkur þrátt fyrir að Tókíó eigi að vera ein sú dýrasta í heimi, Ísland er bezt! Þetta er ákaflega áhugavert þjóðfélag og hef ég loks fengið að nota Japönskuna sem ég lærði af tvíhöfða um árið er þeir hringdu ávallt í sama japanann sem talaði enga ensku. Arigató, sajonara, gengi des, konnisíva og fleiri stuð orð hafa hrokkið af vörum mínum líkt og innlendur sé. Veðrið hefur líka verið ljúft, loksins fengið hita undir 30 gráðum en það hefur þó alltaf verið smá skúrir hvern dag sem er passlegt því ég sendi akkúrat regnjakkann minn heim er ég var í Hong Kong.

Ég hef flakkað um alla Tókíó og hefur hún uppá alltof mikið að bjóða. Byrjaði um 6 leitið að morgni á fiskmarkaðinum sem þjónar öllum Tókíó búum og “brjálæði” er ekki nógu og sterkt orð til að lýsa því sem gengur þarna á í um 2 klukkutíma. Hér og já í mestallri asíu er fiskur málið, annað en heima, Allah sé lof. Hef svo skoðað hin ýmsu hverfi og söfn borgarinnar meðal annars kamakazi tundurskeyti sem hannað var fyrir eina persónu en 100 manns fórnuðu sér í svona ferlíki í kamakazi leiðangur með litlum árangri í seinni heimstyrjöldinni.


Gamanið varð hvað mest á sunnudaginn í Harajuku en þar má finna almenningsgarð sem fyllist á sunnudögum af fólki og af fólki að skoða fólk. Þarna má finna unglinga klædda upp sem t.d. manga persónur eða sem einhverjar gotneskar fígúrur. Einnig er að finna fullorðið fólk klædd sem rokkabíllí eða grease persónur og dansa þarna frá sér allt vit og lifa sig algjörlega inní þetta. Svo má finna tug hljómsveita spilandi um allan garð með 30 metra millibili ásamt fólki að reyna að læra að dansa, gera sirkusatriði, jóga og jú neim it. Magnað! Ég var svo á álagstíma í Shinjuku neðarjarðarstöðinni en um 800.000 manns fara um hana daglega sem gerir hana þá fjölförnustu í heimi.. þið getið ímyndað ykkur eða kannski ekki.


Er kominn til Kyoto með hröðustu lest sem ég ef stigið fæti inní, að horfa útum gluggann var líkt og að horfa á kvíkmynd á fast forward. Fékk mér hráan mat líkt og flögufrændur kalla þetta, aftur, í tilefni komu minnar hingað. Við hin, köllum þetta sushi.
Hversu lélegir eru þessir terróristar á Bretlandi? Þessir náðu að drepa 100 saklausa borgara.