mánudagur, maí 14, 2007

Lýðurinn ræður?


Stoppaði stutt í borg ljónsins, Singapore. Lítil eyja þar á ferð á stærð við stór Reykjavíkur svæðið en með nærri 5 milljónir íbúa og næst fjölförnustu höfn heimsins. Verulega hrein og skilvirk með fjölþjóðasamfélag þar sem allir lifa í sátt og samlyndi, þökk sé alltof ströngum lögum við öllu. Má segja að hún sé græna útgáfan af manhattan.
Einhvern veginn tókst Finni að sannfæra mig um að fara í einkatíma í karate hjá einhverjum svartbelting, vini hans. Þetta mun ég flokka undir næst vitlausustu íþróttaframkvæmd mína síðan ég prufaði að fara í jóga um árið. En samt stuð.

Er kominn til Kuala Lumpur í Malasíu. Held hér til í kínahverfi á gistihúsinu rauða drekanum. Ekki er margt hér að skoða annað en Petronas turnarnir sem var heimsins stærsta bygging þar til 2004. Gríðarlega flott bygging gerð úr gleri og stáli í íslömskum stíl. Annars er komið nóg af frumskógi steinsteypunnar og hef ég sett stefnuna á hálendið.

Ég fylgdist nokkuð með kosningunum en minna með júróvísjón. Engu að síður fengu báðir þessir atburðir jafnmikla athygli í fjölmiðlum hérna fyrir austan, eða enga. Ég kaus samfylkinguna í okkar glæsilega sendiráði í Kína. Þar tók á móti mér Axel Nikulásar sem var líka svona helvíti hress. Stimpillinn fyrir íslandshreyfinguna hafði þó ekki borist í hús.

Ólafur Stephensen sagði í frétt núna í nótt (en hefur verið breytt núna í "sjá nánar í morgunblaðinu") að framsókn og sjálfstæðismenn væru á leið í samstarf þar sem framsókn fengi 4 ráðherraembætti. Á maður að trúa svona eða er þetta óskhyggja viðkomandi? og flokkarnir ekki einusinni með 50% atkvæða þjóðarinnar. Það skildi þó ekki verða að Birkir vinur minn verði ráðherra? Ég sé að trúbróðir flögu frænda vill frekar vinstri græna í samstarf en samfó. En náttúrlega er eina vitið að S og D fari í samstarf og framsókn haldi áfram að hverfa..

miðvikudagur, maí 09, 2007

Mannasiðsnefnd


Lesendur heimta blóð og afsökunarbeiðnir en ég gef mig ekki en rita þó eitthvað hérna fyrir mig. Ég marseraði 1 maí, fagnaði afmæli Skúla Arnars og Beckhams þann annan ásamt að skoða og gá restina af dögunum í Peking. Ég átti skedjúlað flug suður til Singapúr með þriggja daga stoppi í Tælandi.

En í Kínalandi eru breyttir tímar. Nú má ekki hrækja lengur á gólfið í lestum, rútum og leigubílum. Allt skal bannað sem litið getur illa út í augum heimsins. Því er búið að planta hér skiltum og mannasiðsverðir ganga um og minnir fólk á þennan nýja sið. Enn má þó sjá fólk hrækja að gömlum sið en hann felst í því að safnað er frá tá og uppí háls með tilheyrandi óhljóðum og svo fær slumman að fjúka. Reyndar las ég líka að banna átti sköllótta leigubílstjóra fyrir ó-leikana, en hef ekkert séð gert í því að útrýma þeim.
Hér er ekkert til sem heitir að fara í skipulagða röð heldur er troðist strax og hurðin opnast í rútunni eða neðanjarðarlestinni, inn og út. Að fara fram fyrir í röðinni við miðasölu er jafn sjálfsagt og að blikka augunum. En þessu skal einnig breytt og varð ég vitni að “stand in line” deginum þar sem verðir voru við hverja lestar og strætóstoppistöð að leiðbeina hvernig á að fara í röð og var þetta mikið stuð.. einsog í leikskólanum forðum.

Ég hef annars lokið ferðalagi mínu í Kínalandi með 30 tíma lestarferð frá Chengdu yfir til Peking en svo skemmtilega vill til að þetta er einmitt sami tími og meðalsvefntími ka-mannsins. Ég er þó ekki það heppinn að hafa þennan hæfileiki svo ég þurfti að finna eitthvað annað að gera með tímann í lestinni. (Önnur skemmtileg tilviljun er sú að heimsmeistarinn í eyrnalyftingum er einmitt kínverji og er heimsmetið sama þyngd og sterkur og árni úzbekistan hafa toppað í bekk eða 49,5kg, magnað!) Ferð mín lá svo til Bangkok, þaðan til Singapúr og hér er kominn í gott yfirlæti hjá Finni, Fey og Ástu í Singapúr. Hér er tyggjógúmmí bannað.