föstudagur, febrúar 23, 2007

Verri í fyrirsögnum en Berglind..


Laos er líklega þekktast fyrir það að vera mest sprengda land í heimi en hér var varpað fleiri sprengjum en yfir Japan og Þýskaland samanlagt í seinni heimstyrjöldinni. Var þetta á árunum 1965-1973 er Bandaríkjamenn börðust hér í svökölluðu “secret war”. Nóg um það.


Laos er gríðarlega fjallent og því allar samgöngur hægar og maður hreyfist ansi hægt á landakortinu. Á síðustu 6 dögum hef ég því gert lítið annað en setið meðan ég er að koma mér hérna yfir erfiðasta hjallann.
Dagur 1: rúta + bátur = 10 tímar.
Dagur 2: bátur 9 tímar
Dagur 3: borgin Luang Prabang skoðuð.
Dagur 4: rúta 9 tímar
Dagur 5: Phonsavan og nágrenni skoðað.
Dagur 6: rúta 6 tímar.


9 tíma rútuferðinni mun ég seint gleyma en hún byrjaði á því að ég þurfti sitja í miðjunni á trékolli vegna fjölda farþega. Sætið var svo uppgreitað í tréstól með baki eftir 2 tíma. Það má segja að nánast hver einasti innfæddi farþegi hafi verið veikur svo að ég horfði á fólk æla í poka, útum glugga, útum hurðina sem var opin alla ferðina og á gólfið úr þessu fína stúkusæti. Bátsferðin niður Mekong ána (sem er einmitt skýrð eftir veitingastaðnum á Íslandi) var barnaleikur miðað við rútuferðina.

Er því hér í borginni Vang Vieng og búinn að koma mér fyrir í bungalow niðri við ána. Fyrir framan herbergið mitt er verönd með hengirúmi og fyrir þetta borga ég 3 dollara. Verð hérna í einhverja daga að slappa af, hjóla um, skoða hella og stunda helsta sportið sem er að fara á vörubílaslöngu niður ána sem ku vera magnað.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Er ennþá í Tælandi.

Ég er staddur í Chiang Mai á leið til Chiang Rai á morgun og Laos á Föstudaginn. Ég er búinn að afreka að fara í river rafting, matreiðslunámskeið, bak á elephant, einsdags göngu hérna í frumskóginum og skoða alltof mörg Búddha hof. Sjáum til hvað Laos bíður uppá.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Suðaustur Asíu planið.



Hér er ferðalag mitt merkt ónákvæmlega með rauðu striki inná kort sem ég stal af internetinu. Ég mun fara uppá við á þessu korti a.k.a. norður. Mun ég leggja af stað á föstudagsmorgun en ég fæ vegabréfsáritun mína fyrir Víetnam klukkan 16:00 á morgun.

Hefst þá upptalning í réttri röð um þá staði sem ég mun stoppa við eða hafa næturstopp en ferðin byrjar hér í Bangkok.

Þess má geta að Laos (sem virkar ekki stórt á kortinu) er rúmlega tvisvar sinnum stærra en Ísland. Þetta er því töluverður spotti og reyndar mun lengra en ég hélt.. ehmm.




Tæland: 3 vikur
Ayuthaya
Phitsanulok
Mae Sot
Pai
Chiang Mai
Chiang Rai

Laos: 2 vikur
Luang Nam Thá
Muang Sing
Nong Khiaw
Luang Prabang
Phonsvanan
Vang Vieng
Vientiane

Vietnam: 2 vikur
Hanoi
Sapa
Halong bay
Hué
Hoi An
Nha Trang
Dalat
Mui Ne
Saigon
(Phu Que eyjan)

Kambódía: (1 vika)

Phnom Pen
Kompong Chhnang
Siem Reap (Angor)
Battampang
Sisophon > Banteay Chhmar
Poipet

Tæland aftur: restin af þessum 3 vikum
Aranya Prathet
Khao Yai þjóðgarðurinn

Svo fer ég aftur til Bangkok og þá er hringnum lokið. Áhugasamir (semsagt mamma) geta þá fylgst með hvar ég er staddur hverju sinni á þessum hring en ég mun auglýsa það með ójöfnu millibili.

Frá Oman til Tælands.


Vaknaði klukkan 06:00 á sunnudagsmorgun og tók rútuna frá Muscat í Oman og yfir til Dubai þar sem ég beið á flugvellinum til 23:00. þá flaug ég til Tælands og var lentur 08:00. Var svo kominn í herbergið mitt hérna í Bangkok klukkan 13:00 á mánudegi. Ég sofnaði strax.

laugardagur, febrúar 03, 2007

Celebrate the art of shopping.


Dubai er ekkert öðruvísi en aðrar borgir. Það þarf að finna ástæðu til að fá fólk til að koma hingað og því stendur núna yfir “shopping festival” þar sem þeman er “celebrate the art of shopping”. Kunnugir í Dubai segja þó engan mun vera á þessu dögum eða öðrum dögum ársins, hér eru hvort að er allir að versla. Fór að sjá Burj al arab hótelið (seglið) en það kostaði mig 100$ að fara í anddyrið svo ég sleppti því. Ég fór því næst í sundlaugarrennibrautargarð í nágrenninu sem er á 4,8 hektara landsvæði. Það tók mig svo 1 og hálfan tíma að komast þessa 14km til baka enda er umferðin hér einn hnútur, svo vægt sé til orða tekið.







Fór því í gærmorgun á rútustöðina og tók rútuna til Muscat, höfuðborgar Oman. 1970 hafði þetta land einn skóla, eitt sjúkrahús rekið af bandarískum trúboðum og um 10km af malbiki. Í dag er þetta velmegunnar paradís og hefur fallegustu höfuðborg sem ég hef séð. Öll hús eru byggð í arabískum stíl, lágreist og ljós á lit. Göngustígar og umferðarmannvirkin eru þvílík og allt gengur hér án nokkurra tafa. Borgin liðast hér um meðfram ströndinni og á milli fjallanna, svo má sjá gömul portúgölsk virki og kastala í hlíðunum og allir vita hvað ég dýrka kastalabyggingar..

Íranir eru ekki arabar, heldur aríar.


3000 km að baki í Íran og hef ég flakkað um sögusvið Mesapótamíu, Persíu og Írans. Þjóðin er gríðarlega ung, 70% eru undir 30 ára aldri og gaf forsetinn mikil loforð til þessarar kynslóðar fyrir kosningarnar en fá hefur hann þó staðið við svo maður finnur fyrir gríðarlegri óánægju í landinu.
En hjálpsemi og gestrisni fólks er hreint ótrúleg. Mér hefur verið boðið út að borða og ókunnugir hafa verið búnir að borga fyrir mig matinn er ég hef ætlað að borga. Mér hefur verið boðið inná heimili fólks í mat og gistingu, ásamt því að hafa verið fylgt um borgi og bæi án nokkurrar þóknunar.
Fólk hefur komið upp að mér til að spjalla um allt og ekkert og skiptir engu hvort ég sé í leigubíl, á veitingahúsi eða koma af salerninu. Umræðuefnin hafa verið allt frá stríðinu við Íraka, knattspyrnu, ástandið fyrir og eftir byltinguna, trúarbrögð, áfengi, forsetann, réttindi kvenna, tónlist, bandaríkin, kjarnorku, rapp, atvinnumál, konur, tísku og hvernig trúarofstækismenn frá borgunum Qom og Mashhad komast til valda á kostnað fólks með menntun og hæfileika..
Íranir eru líklega einnig sú þjóð sem ég hef kynnst sem kemst hvað næst grobbi Íslendinga um að flest hér er sé það fallegasta í heimi.
Annars á ég nánast heimboð í hverri einustu borg og ég þarf lítið að hafa áhyggjur af gistingu er ég kem hingað aftur..