föstudagur, febrúar 23, 2007

Verri í fyrirsögnum en Berglind..


Laos er líklega þekktast fyrir það að vera mest sprengda land í heimi en hér var varpað fleiri sprengjum en yfir Japan og Þýskaland samanlagt í seinni heimstyrjöldinni. Var þetta á árunum 1965-1973 er Bandaríkjamenn börðust hér í svökölluðu “secret war”. Nóg um það.


Laos er gríðarlega fjallent og því allar samgöngur hægar og maður hreyfist ansi hægt á landakortinu. Á síðustu 6 dögum hef ég því gert lítið annað en setið meðan ég er að koma mér hérna yfir erfiðasta hjallann.
Dagur 1: rúta + bátur = 10 tímar.
Dagur 2: bátur 9 tímar
Dagur 3: borgin Luang Prabang skoðuð.
Dagur 4: rúta 9 tímar
Dagur 5: Phonsavan og nágrenni skoðað.
Dagur 6: rúta 6 tímar.


9 tíma rútuferðinni mun ég seint gleyma en hún byrjaði á því að ég þurfti sitja í miðjunni á trékolli vegna fjölda farþega. Sætið var svo uppgreitað í tréstól með baki eftir 2 tíma. Það má segja að nánast hver einasti innfæddi farþegi hafi verið veikur svo að ég horfði á fólk æla í poka, útum glugga, útum hurðina sem var opin alla ferðina og á gólfið úr þessu fína stúkusæti. Bátsferðin niður Mekong ána (sem er einmitt skýrð eftir veitingastaðnum á Íslandi) var barnaleikur miðað við rútuferðina.

Er því hér í borginni Vang Vieng og búinn að koma mér fyrir í bungalow niðri við ána. Fyrir framan herbergið mitt er verönd með hengirúmi og fyrir þetta borga ég 3 dollara. Verð hérna í einhverja daga að slappa af, hjóla um, skoða hella og stunda helsta sportið sem er að fara á vörubílaslöngu niður ána sem ku vera magnað.