laugardagur, mars 31, 2007

Í sandölum og engum bol.


Ég kom mér yfir til Bangkok frá Phnom Penh og er þetta líklega versti vegur í heimi! Hann er ómalbikaður og sem þvottabretti. Það tók 5 tíma að komast þessa 150km með bilunum og sprungnu dekki að landamærunum. Það mátti sjá 2-3 valtara og vörubíla á þessum kafla að þykkjast vera að gera eitthvað en nóg er af skiltum sem segir að vegavinna sé í gangi. Í raun er þetta ástand búið að vera í mörg ár því sagan segir að flugfélag kambódíu borgi héraðsstjóranum fyrir að laga ekki veginn. Trixið er að túristarnir fara í rútum frá Tælandi til að sjá Angkor Wat en meiki ekki ferðina til baka og kaupi sér flugmiða í staðinn. Einnig passa rúturnar sig á því að vera sem allra lengst á leiðinni og koma seint að kveldi að ákveðnum hótelum og fá þókknun fyrir.


Ég kom mér annars í Kínverska sendiráðið og sótti um dobbúl entry VISA og fann flug til Beijing með mínum múslima vinum hjá Egypt air. Hef svo komið mér fyrir hérna á eyjunni Ko Samet sem er í raun þjóðgarður skammt frá Bangkok. Það væri verra ef það væri betra svo ég vitni í ákveðinn, en hér er allt til alls, nema eitthvað ódýrt. Ég hef því hlaupið um strendur á rauðu lendarskýlunni minni sem Hasselhoff og vakið aðdáun og heimsfrægð fyrir minn snjóhvíta líkama.
Annars hafa Siggi eða Bó gerst sekir um að kvitta undir síðustu færslu sem “einar valur”. Varist eftirlíkingar kæru vinir.
Já og svo óska ég systrum mínum til hamingju með afmælið, ein átti afmæli í gær og hin um daginn..

þriðjudagur, mars 20, 2007

Kambódía og Pol Pot.


Kom mér frá Saigon og yfir til Phnom Penh í Kambódíu. Ástandið í borginni minnir mig einhverra hlutavegna á er ég kom til Úganda. Hvað um það, byrjaði á því að skoða forsetahöllina og fór þaðan yfir að skoða Tuel Sleng safnið sem er betur þekkt sem Öryggisfangelsi 21 (S-21). Þetta var skóli sem breytt var í illræmdasta fangelsi rauðu Kmeranna. Hér voru stundaðar ótrúlegar pyntingar sem fylgt var eftir með því að þeir sem lifðu þær af voru keyrðir útá “the killing fields of Choeung Ek” og líflátnir þar, enginn fékk lausn. Á tímabili voru 100 manns líflátnir á dag. Þarna mátti sjá myndir af föngum, pyntingartólum og aðferðum ásamt að lesa sögu fanganna sem frelsaðir voru og einnig frásögn fangavarða. Þaðan fór ég útá “the killing fields” þar sem fjöldagrafir voru grafnar og margir hverjir jarðaðir lifandi eða líflátnir á þann hátt að spara mátti byssukúlur. Ótrúleg sorgarsaga þetta 4 ára tímabil (1976-79) þar sem um 1,5 milljónir manna létust án þess þó að Pol Pot hafi verið lögsóttur fyrir.


Frá Phnom Penh kom ég mér til Siem Reap. Það er munur að koma sér frá að skoða minjar sorgarsögu Kambódíu og yfir í þeirra mesta stolt, borgina Angkor. Ég bjóst við að Angkor Wat væri stórt en váááá, þetta er ótrúlegt mannvirki! Hér eru líka fjöldinn allur af ekki ómerkari byggingum svo að ég verð hér allavegna 3 daga að skoða.

laugardagur, mars 17, 2007

Í borg Ho frænda.


Ho Chi Minh borg, betur þekkt sem Saigon hefur haldið mér föstum í nærri viku. Hér hef ég skoðað hin ýmsu áróðurssöfn, stríðsminja safnið sem hefur að geyma ótrúlega myndir úr víetnam stríðinu sem gera alla orðlausa. Þvílíkir glæpir sem framdir voru af Ameríkönum og er nema von að það voru fyrrum bandarískir hermenn úr þessu stríð sem spiluðu stóran part í því að kaninn viðurkenndi ósigur sinn og drægi sig frá landinu.Áhrifin af efnavopna hernaði bandaríkjamann sjást enn í dag. Maður getur rétt ýmindað sér hvað er í gangi í Írak þar sem jackass kynslóðin, krakkar um tvítugt og yngri, fá að leika sér með ein öflugustu vopn sem fyrirfinnast í heiminum. Svo ég tali ekki um hegðun þeirra einsog í Abu Ghraib fangelsinu..

Ég skoðaði svo Cu Chi göngin sem eru um 70km frá Saigon. Það var gangna kerfi sem Víet Kong notaði í stríðinu og var nærri 200km að lengd. Ég skreið þarna um en var svo "heppinn" að einmitt þennan dag áttu þeir í vandræðum með rafmagnið. Svo stundum var ansi svart þarna inni og stelpan bakvið mig við það að flippa. Þetta var þó ekki nema um 100m sem maður skreið.












Skoðaði einnig frelsishöllina og þótti mér ægilega spennandi að komast í kjallarann og skoða byrgið og hvar njósnir fóru fram af fagmennsku.









föstudagur, mars 09, 2007

Í ´Nam.


VÁÁ! Hvað það er langt síðan að ég bloggaði síðast. Þegar andinn hefur komið yfir mig þá hefur systurflokkur denna J. stoppað hér allt blogg og álíka sora.
Annars í fréttum er það helst:
Ég tók flug frá Laos til Hanoi í Víetnam. Þar bókaði ég siglingu um Halong flóa sem kvikmyndabuff (a.k.a. Jón Ívar) kannast við úr tomorrow never dies. Gisti um borð í báti á flóanum ásamt að skoða risavaxinn helli. Því næst fundum ég og bretinn Mike (ekki Al) okkur pöbb í Hanoi til að horfa á hinn yndislega leik Liverpool – Manutd og þvílík sæla og læti á barnum.

Hér er það kommúnisminn og Ho Chi Minh sem rúla. Gríðar munur á Laos og Víetnam þar sem hér er aldrei friður fyrir sölumönnum og mikið líf í gangi en í Laos þurfti maður að vekja sölumanninn til að fá að borga fyrir vöruna.
Ég skoðaði Ho frænda liggjandi í glerkistunni sinni ásamt að þræða herminjasafnið og endaði í “Hanoi Hilton” fangelsinu þar sem Bandaríkjamenn voru geymdir í stríðinu. Til að lifa mig inní hlutina hérna þá fór ég útá næstu dvd sölu og keypti mér Apocalypse Now og Full Metal Jacket. Hver dvd diskur kostar 1$ og eru þetta topp kvolidí. Ein áströlsk stelpa sem var í búðinni á sama tíma og ég fór út með 500 diska, kvikmyndir og sjónvarpsseríur. Jón, haltu þér frá Víetnam!

Ég var svo 13 tíma á leiðinni í lest til Hue og þaðan hef ég komið mér með rútu hingað niður til Hoi An. Læt myndirnar um rest..