þriðjudagur, desember 20, 2005

Geng eins og Egypti

30sec tók að fá áritun og inngöngu í Egyptaland. Þeir eru ekki að stressa sig hér og augljóst að partur af seðlunum sem ég lét þá fá, fer ekki í ríkiskassann. Dahab var bærinn þar sem ég hafði aðsetur í 2 nætur. Kafara"töffarar" hanga hér, enda hafið rauða hér við þröskuldinn og barir útumallt, minnti mig á galapagos. Hér snorklaði ég, et og drak og ver gladr á ströndinni. Settum næst stefnuna á Sínaí fjallið þar sem Guð á að hafa flogið framhjá og kveikt í runna, ásamt að hafa sett Móses lífsreglurnar 10, líkt og segir í Gríms ævintýrum. Þurfti ég að hunskast á fætur 02:30 og klífa fjallið. Fyrir 500kr ísl. þá sparaði ég mér 6km í göngu og fékk far á úlfalda. Kuldinn og vindurinn á toppnum minnti mig á hvar ég verð eftir 4 daga en sólarupprásin 06:30 yljaði mér fljótt og teið var afbragð.

Rútan var svo sett í gírinn, Sínaí-skaginn keyrður, undir Súez skurðinn og Kaíró blasti við 8 tímum seinna. Giza pýramídana og sfínxinn heimsótti ég svo næsta dag ásamt að fara inní Kúfú píramídann. meðalhæðin fyrir 3000 árum var eitthvað lægri því ég nánast skreið þessi göng og hitinn, úff... En Egypska þjóðminjasafnið var svo klárað á tveim brettum. Kvaddi ég hópinn minn um kvöldið en restin er á leið niður til Luxor og Aswan, i hate these goodbyes. Hef svo eytt deginum einn á flakki í Borgarvirkinu, Muhammad ali moskunni og Ibn Tulun moskunni ásamt að láta sölumenn dauðans bögga mig í khan al-kalili markaðinum í íslamska hluta Kaíró. Fékk nóg og gerðist djarfur og rölti inná Nile Hilton hótelið og uppá efstu hæð þar sem ég fékk mér veigar og horfði yfir borgina í síðasta sinnið. Ljúft líf þetta..

London í nótt, ísland þann 23des og tánginn góði morguninn eftir, inshallah!. Látum þetta vera lokaorð að þessu sinni.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Og vindurinn mig ber og ég sé..

Stiklur. 400m undir sjávarmáli var ég fljótandi á dauðhafinu, í saltupplausn. Við tók ferð til Petra, sem flestir þekkja úr Indiana Jones og Last Crusade. Einn af hápunktunum mínum og sérstaklega asna reið mín þar um sem var ógleymanleg. Enginn stöðvunargír virtist vera á þessu dýri og keyrði ég niður 4 manneskjur á leið minni að sjá Ad-Deir musterið, á bölvinu sem á eftir mér fylgdi, þá virtist þetta vera Þjóðverjar. Síðastur var ég af stað en fyrstu var ég upp snarpratt 750 trappa fjallshlíðina. Asnar Sahed og Súset fylgdu fast á eftir er ég tók framúr þeim. Ég gekk niður.

Gisti ég í tjaldi bedúína í Wadi Rum eyðimörkinni við góðan orðstír. Við tók úlfaldareið um eyðimörkina ásamt jebbaferð, þar sem pallbíll brunaði um mörkina, meðan ég ríg hélt mér á pallinum. Er núna staddur í Aqaba, leiðindarbær með alltof hátt rakastig og bíð spenntur eftir að komast til Egyptalands í fyrramálið.

Jerúsalem ferðin varð vinum mínum Sahed og Raúl eftirminnileg. Ísraelskir landamæraverðir létu þá bíða í 6 tíma á King Hussein landamærunum, já eða fram að lokun. Erfitt að vera múslimi í dag. "You are never gonna make it" voru síðustu orð Ísraelsku landamæravarðanna er þeir brunuðu til að sjá Haram ash-Sharif moskvuna en þeir ætluðu sér að sjá hana og fara svo um Sheik Hussein Landamærin, sem er um 3 tíma akstur, en þau loka 21:00. Það tókst.

Hef sett inn 3 myndir!

1. Amman í bakgrunni.
2. Borgin Petra.
3. Ég á þjóðlegum nótum.

http://www.hi.is/~einarv/east

sunnudagur, desember 11, 2005

Amman, Jórdanía.

Hér er ég kominn og kveð Sýrland með söknuði. Amman er töluvert vestræn. Í þessari ferð minni hef ég fátt séð sem minnir á hátíð verslana, jólin. En ég hef engann tíma til að pæla í því, Ég, Sahed og Raúl erum að plana ferð í fyrramálið niður til Jerúsalem í fjörið.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Jalla jalla!

Áfram er haldið. Ef litið er á landakort má sjá skemmtilegheit. Austuráttin, 300km frá mér, hefur að geyma Írönsku landamærin, öxul hins illa, 200km eru í Efrat ána og í vesturáttinni læðist Orentos fljótið í 150km fjarlægð. Ég er staddur útíbuskanum í hinni fornu borg hennar Zenobíu, Palmyra. Túristabær í miðri eyðimörk.

Sýrland er ódýrara en Bangladesh, segja mér fróðir menn. Hér fæ ég mér skyndibita og gosdós á 50kr. 3 rétta máltíð á besta stað er á 300kr. Taxi þvert og endilangt er max 35kr. Snickers á 25kr. Té-bolur á 150kr. Og örugglega eitthvað af þessu er verið að "okra" á mér, hinum vestræna íbúa.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Hama heimsótt.

Ég er búinn að joina grúbbuna mína. Engum kemur það á óvart að flestir eru Ástralir, hin eiturhressi ríkisstarfsmaður Súset, Stúlkan með tyrkneska lúkkið og dóttir suður amerískra innflytjenda Ingrid, Vinirnir og ferðafrömuðurnir Matt og Daniel, ásamt verkfræðinemanum Daniella með biluðu myndavélina. Næstir eru það bresku Bangladesh búarnir, hinn sítalandi Sahed og frændi hans Raúl. Einnig er það prinsessan Alison. Herbergisfélagi minn og svefngengillinn reyndist vera Erik frá Hollandi. Trukkadræver og hjólari sem hefur ekkert email. Myndarlegur hópur sem var búinn að ferðast í gegnum Tyrkland áður en ég og Erik slógumst í hópinn. Gædinn er hinn skipulagði Sýrlendingur, Basjar.

Hér í Arabaheimi hef ég fengið að gera það sem ég hef alltaf verið heillaður af og fylgt mér frá playmó tímabili mínu með Billa, að skoða kastala! Mikið virki stendur á manngerðu fjalli og gnæfir yfir Aleppo, það var skoðað. Ótrúlegt mannvirki gert 12 öld. Svo var það kastali riddaranna, Crac des Chevaliers sem byggður var um 1000. Endaði á skoðun á Basilíkuna heilags Símoen sem var stærsta kristna bygging mið austurlanda þegar hún var byggð á 4 öld.

Er staddur í borginni Hama sem er hljóðlát og róleg og hótelið afbragð. Hér á móti er hægt að fá mjólkurhristing með banana og jarðaberjabragði. Ég er búinn að fara 4 sinnum..

sunnudagur, desember 04, 2005

Óheppinn?

Félagi minn og verðandi herbergisfélagi frá Hollandi upplifir margt. Fyrsta lagi, þá var hann degi of seinn og ákveður að koma í nótt. Ekki birtist hann og því talið að hann hafi hætt við. Nei, fáum við þá ekki fréttir af því að hann sé kominn.. til Amman, Jórdaníu! Ég bíð spenntur fregna af hvernig honum tókst þetta. Ég er annars kominn til Aleppo, nálægt landamærum Tyrklands, en hún er næst stærsta borg Sýrlands. Hér á ég að hitta hópinn minn, en hann kemur frá Tyrklandi síðdegis.

Það tekur um 2 tíma að keyra frá Beirut til Damascus. Yfir einn fjallagarð og volllla, þú ert kominn í nýtt land og annan heim. Beirút er hálfgerð miðjarðarhafsborg með svona Istanbúl keim, bland af austri og vestri. Margir á þýskum einkabílum, amerískar skyndibitakeðjur á hverju horni við hliðina á moskvum. Hér í Damascus er allt annað í gangi. 3/4 bíla í umferðinni eru leigubílar og þá úr austur evrópu og litlar rútur. Minnir óneitanlega á Bólivíu. Varla vestræn vörumerki að sjá og inná milli karlar í kuflum með rauð/hvíta hausklúta, sem er kúl. Að huxa sér..

föstudagur, desember 02, 2005

Ahlan wa sahlan to Damascus, Syria.

Dagurinn hófst á bílferð frá Beirut til Damascus. Farartækið var 30 plús ára Buick af stærstu gerð. 6 voru farþegarnir og ég, sem stærsti maður, sat frammí á milli bílstjórans og dottandi araba. Hnéið var nánast við höku, svo þröngt var og lágt til lofts. Draumurinn var að svona ferðalag færi ég í í henni ameríku, en þetta er það næst besta. Bílstjórinn svigaði á milli akreina á þessum skriðdreka í góðum gír og vorum við bara einu sinni næstum dauðir. Landamæraverðirnir stimpluðu passann minn með miklum látum og fast, enda lítið að gera vegna spennunnar milli landanna.

Sýrland á mér eftir að líka við því fyrsti bíllinn sem ég sá var Lada og var það leigubíll. Ég fékk far með honum og byrjuðum við á því að láta ýta honum í gang, á miðri miklubraut! Hóaði bílstjórinn útum rúðuna á nærstadda vegfarendur og fórnuðu þeir lífi og limum við að koma Kagganum af stað. Er hótelinu var reddað og ég hafði ýtt leigubílstjóranum í gang, rölti ég af stað, eitthvert.. Allt virtist lokað en komið hefur í ljós að nú er frídagur hér í bæ. Fann ég þó schwarma að borða og villtist eftir það.. Náði ég áttum með hjálp táknmáls, ensku með arabískum slettum, tveggja Sýrlendinga og korts í lonely planet bókinni minni, al hamdu lillah! Fylgdu þeir mér á þetta eina internetkaffi sem opið er í dag, að sögn. Nú er bara að rata til baka..

fimmtudagur, desember 01, 2005

Á rúntinum í Beirút

Ég hef gaman af umferðarmenningu og mannvirkjum tengdum þeim. Við lestur á lonely planet bókinni þá kom þessi lýsing "Lebanese drives like a lunatic who has only recently - and illegally - escaped from a asylum!". Hún á svo sannarlega vel við en hér beygja menn inná brautir þegar þeim hentar, stoppa þegar þeim hentar og keyra eins hratt og druslan kemst. Double parking er vinsælt og umferðarljósin virðast aðeins til skrauts.. Fátt er skemmtilegra en rúntur með leigubílstjóra og heyra hann bölva, furða sig á akstri annarra og sjá hvernig hann framar öðrum á réttinn á öllum gatnamótum. Og ekki má gleyma spallinu og furðusvipnum er ég segist koma frá Iceland, "Ireland?" er þá oftast svar þeirra. Ég spenni ekki einusinni beltið svo spenntur verð ég.. .en alltaf kemst maður á leiðarenda. Annan eins fjölda af mercedes benz og BMW hef ég aldrei séð, og ekki þjóðverjinn heldur, sem ég hitti á röltinu en þessi floti er örugglega vel yfir 50%. "Góð gæði" var útskýring leigubílstjóra þegar ég spurði hann útí þetta og ekki lýgur hann.

Að öðru, ég skoðaði hellana í Jeita, sem eru rosalegir, og borgina Byblos þar sem stafrófið er talið upprunið og borgina Tripoli í gær.

Í dag rölti ég um Beirút, gekk "grænu línuna", skoðaði sundurskotið Holliday Inn, gröf Harriri ásamt staðnum þar sem þeir drápu hann. Uppbygging borgarinnar er ótrúleg og ekki hægt að ímynda sér að þessi borg hafi verið sundurskotin, spreng og í tætlum fyrir 5 árum síðan. Heimsótti einnig þjóðminjasafnið og rölti um húsakynni Ameríska háskólans hér í Beirút (stofnaður 1868). Fólkið hér er frábært og maður finnur ekki til óöryggis. Fólk er glatt, stollt, og með can-do hugarfar og spjallar hiklaust við mann. Og maturinn.. jömm, jömm!. Flestir virðast vel færir á ensku og sérstaklega frönsku, sem nýtist mér þó ekkert. En arabískan er öll að koma hjá mér..