mánudagur, janúar 29, 2007

bakkað upp ártúnsbrekku..


Er kominn til Tehran. Á þessu hóteli hafa líklega 1-2 Íslendingar verið síðastliðin 10 ár, sagði mér hóteleigandinn. Nema hvað er ég kem hér uppá hótel þá segir mér eigandinn að það sé annar Íslendingur búinn að bóka sig inn! Ég á erfitt með að trúa því fyrr en hann sýnir mér vegabréfið hans. Hér var því staddur hann Guðmundur Þór, nokkrum herbergjum frá mér.


Í dag og morgun er frídagur vegna Imam Hussein sem dó fyrir einhverjum 1400 árum síðan. Eru hér miklar skrúðgöngur og svartir fánar um allt, en þetta er dagurinn er karlmenn berja sig til blóðs á bert bakið með keðjuvendi samkvæmt sjónvarpsfréttum. Íranskir karlmenn eru þó ekki mikið fyrir það, allavegna hér í Tehran og láta duga að fara í skrúðgöngur og berja laust með flötum lófa á brjóstkassann eða berja sig laust á bak með þessum vendi, íklæddir svartri skyrtu, í takt við trumbuslátt.


Af hverju telja leigubílstjórar hér það í lagi að bakka upp einstefnugötur ef þeir hafa farið of langt? Þetta hef ég marg oft séð en fékk svo að kynnast sjálfur er leigubílstjórinn minn fór of langt með mig. Þetta var líkt og að bakka upp ártúnsbrekkuna á háanna tíma með tilheyrandi flauti og bremsuhljóðum.


Mynd: Fyrir utan fæðingarstaðar Imam Khomeini í Qom.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

MR Oh!


Í Esfahan gisti ég í 5 manna herbergi sem kostar um 300kr nóttin. Á móti mér er hún Sjang, 45 ára gamall kennari frá Kóreu sem nýtir vetrarfríið til þess að ferðast hér um í 2 vikur. Þar til hliðar er japaninn með magaverkinn, en hann kom frá Pakistan í gær eftir vikuferðalag þar og hefur nánast sofið síðan. Þar á móti er japanski stúdentinn Takuma sem hefur uppfært mig um helstu fréttir knattspyrnuheimsins og sagt frá dálæti sínu á Guðjónssen og hans helstu kostum. Sá fjórði er Kóreubúinn Oh. 34 ára strákur sem hefur hjólað um asíu í 2 ár! 8 mánuði í suðaustur asíu og svo 1 ár í Indlandi. Hann er búinn að vera hér í viku og bíður eftir böggli frá Kóreu sem inniheldur nesti og nýja skó. Skórnir hans eru nefnilega ónýtir og svo er hann búinn með einhverja kryddsósu sem hann notar í matargerð sína og getur ekki lifað án. Hann skilur ekki hvernig Ísland getur verið herlaust land.
Var að koma frá borginni Esfahan hér í Íran, sem er líklega fallegasta borg hins Íslamska heims og demantur Persíu hinnar fornu. Verð tvo daga í Kashan en það sem gladdi öll mín skynfæri mest er það sem ég sá á leiðinni á hótelið og það var... Jebb.... Ísbúð!!

föstudagur, janúar 19, 2007

Kheyli mamnun!



Það var kominn tími til að losa sig við það sem Amma öfundar mig mest af en Berglind systir minnst af. Júbb, hið hrokkna hár skildi klippt af á næstu stofu. Eftir þriggja mínútna rölt fannst stofa og er ég steig inn var ég dreginn í stólinn. Klipparinn var hin villta útgáfa af Elvis Prestley og Saddam Hussein í útliti, sameinaður í einn pakka. Á næsta bás var ungur maður búinn að fá klippingu sem var bland af síðum toppi og sítt að aftan með mjög mjöög miklu geli. Það var ekki aftur snúið. Ég reyndi að koma honum í skilning um hverskonar klippingu ég vildi.. en enga skildi hann ensku né íslensku. Fór hann svo sem hvirfilbylur um hausinn á mér líkt og í teiknimynd, þar sem skærin stoppuðu ekki eitt augnablik þó hann væri að hugsa næsta múf. Ég var þó sáttur við útkomuna eftir að ég lét reyndar fjarlægja sítt-að-aftanið sem hann taldi mig vilja. Kostnaðurinn náði 150 krónum..

Kominn til Yazd eftir 7 tíma rútuferðalag. Hér er ein elsta byggð heims samkvæmt Unesco. Drakk te í dýflissu Alexanders Mikla. Gisti á hótel Amir Chakmaq og verður það ekki mikið ódýrara hér í landi, nema jú kannski fangelsisvist..

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Nei ómögulega...


Hér er einn ákaflega skemmtilegur siður. Hann byggist á því að þegar þér er boðið eitthvað þá neitar þú helst þrisvar sinnum fyrir kurteysissakir, áður en þú samþykkir. Þessu hef ég fengið að kynnast oftar en tvisvar þegar t.d. þvottakallinn harðneitaði greiðslu fyrr en ég bauð í þriðja sinn, við höfðum þó samið um verð daginn áður.
Fyrst varð ég var við þetta er ég sat á flugvellinum í Dubai bíðandi eftir flugi til Tehran. Þar gengu tveir eldri menn að einum af fáum lausum sætum. Tóku þeir þá fyrst við að bjóða hvor öðrum sæti með rökum en því næst gripu þeir um hvorn annan og reyndu að koma í sætið. Stigu þeir þarna íslenska glímu þar til einn gaf sig og settist, nema augnabliki síðar þá stendur hann upp og krefst þess að viðmælandinn setjist til þess eins að gefa sig og setjast aftur (sjáið fyrir ykkur Tryggva Ól og Gulla Koll). Aftur varð ég vitni að þessu í Shush. 4 vinir, um fimmtugt eru við að ganga inná litla veitingastaðinn þar sem ég sit og snæði kjúklingakebab beint á móts við dyrnar. Þá hefst fyrsta lota þar sem þeir bjóða hver öðrum að ganga inn fyrst en náttúrulega neita allir. Í annari lotu þá er komið að því að ýta á bak á hver öðrum og reyna að koma inn ásamt miklum kappræðum þar til þeir sameinast eiginlega um einn og ýta honum inn þrátt fyrir að viðkomandi neiti með handapati og orðum. Þá loks er einn er farinn inn þá fylgja hinir á eftir.

Er i Shiraz.


Kom að því að ég hitti fyrstu vestrænu túristana. Það var pólskur leikari og unnusta hans en við fylgdumst að er ég skoðað Persapolis í morgun. Annars er snjór yfir öllu og hiti við frostmark hérna í Shiraz. Þegar ég skoðaði Choqa Zanbil þá var svoleiðis blindaþoka að við sáum varla hvorn annan í bílnum á leiðinni hvað þá framfyrir hann..


Myndir: Bílstjórinn minn og gædinn i Choqa Zanbil bakvið hann. Séð yfir Persepolis.

laugardagur, janúar 13, 2007

Böns of monní


Gengið er hér 1 dollari á móti 9600 IR. Engir hraðbankar í Íran eru tengdir við hið alþjóðlega net fjármála sem þýðir að engin kort virka. Hér er það seðillinn sem talar. Ég rétti því bankastarfsmanninum þrjá 100 dollara seðla og bað um skipti. Það kom svipur á kauða en hann vann vinnuna sína. Svo kom svipur á mig.. ég ákvað að vera ekkert að dobbúl tjékka hvort þetta væri rétt talið.

ferðalag mitt um Íran


Viðmið..

flug og flug

Á síðustu 3 dögum hef ég flogið frá London til Zurich, Zurich til Dubai, Dubai til Tehran og svo frá Tehran til Ahvaz sem er iðnaðarborg hérna í vestanverðu Íran, ekki langt frá landamærunum að Írak.

Dubai er skrýtin borg, þar virðist hver ný bygging sem rís þurfa að vera stærri en byggingin sem byggð var á undan. Þannig keyrir maður í gegnum IKEA skrímsla hverfi þar sem hver glerhöllin raðar sér við hlið annarar, þó ekki sé nema um dekkjasölu að ræða. Sannkölluð draumaborg Ingabjörns bróður þar sem á hverju strái eru nýnýbónaðir bílar af dýrustu gerð sem rúnt hér um með skyggðar rúður allan hringinn. Svo er bensínið nánast gefins.. Minn óbónaði Opel mundi ekki spjara sig í þessu umhverfi, það er ljóst. Ég sný hingað aftur eftir 20 daga, gefum henni sjéns.

Tehran stopp mitt var stutt. Birtist þar um 1 að nóttu og tók þá við að finna mér hótel. Hér hefði pabbi haft gaman af að vera því útum allt eru eldgamlar bíldruslur frá Sovét sem haldið er gangandi á svo undraverðan hátt að aðdáun vekur. Saman hjálpast þessar bifreiðar við að gera borgina að einni þeirri menguðustu í heimi. Leigubíllinn minn frá hinum nýja og glæsilega Imam Khomeini flugvelli var Lada 1300 týpan. Á leiðinni ræddi ég við leigubílstjóra minn um stórkostlegan knattspyrnuferil Ali Daei í Þýskalandi á milli þess sem ég æfði framburð á hinum ýmsu orðum í farsa. Við áttum það sameiginlegt að ensku kunnátta hans var jafn mikil og farsa kunnátta mín.
Daginn eftir, á leið minni útá innanlandsflugvöllinn þá þurfi að fara yfir fjölmörg gatnamót þar sem engin ljós eru. Hraðinn á umferðinni er svona einsog hann gerist bestur á laugarveginum. Á þessum gatnamótum þá fara allar akreinar útá í einu, svo er bara flautað og reynt að troða sér áfram meðan bílar frá vinstri og hægri reyna það einnig. Ég þarf að taka þetta upp á myndband..