Lesendur heimta blóð og afsökunarbeiðnir en ég gef mig ekki en rita þó eitthvað hérna fyrir mig. Ég marseraði 1 maí, fagnaði afmæli Skúla Arnars og Beckhams þann annan ásamt að skoða og gá restina af dögunum í Peking. Ég átti skedjúlað flug suður til Singapúr með þriggja daga stoppi í Tælandi.
En í Kínalandi eru breyttir tímar. Nú má ekki hrækja lengur á gólfið í lestum, rútum og leigubílum. Allt skal bannað sem litið getur illa út í augum heimsins. Því er búið að planta hér skiltum og mannasiðsverðir ganga um og minnir fólk á þennan nýja sið. Enn má þó sjá fólk hrækja að gömlum sið en hann felst í því að safnað er frá tá og uppí háls með tilheyrandi óhljóðum og svo fær slumman að fjúka. Reyndar las ég líka að banna átti sköllótta leigubílstjóra fyrir ó-leikana, en hef ekkert séð gert í því að útrýma þeim.
Hér er ekkert til sem heitir að fara í skipulagða röð heldur er troðist strax og hurðin opnast í rútunni eða neðanjarðarlestinni, inn og út. Að fara fram fyrir í röðinni við miðasölu er jafn sjálfsagt og að blikka augunum. En þessu skal einnig breytt og varð ég vitni að “stand in line” deginum þar sem verðir voru við hverja lestar og strætóstoppistöð að leiðbeina hvernig á að fara í röð og var þetta mikið stuð.. einsog í leikskólanum forðum.
.jpg)