fimmtudagur, apríl 19, 2007

Í Norður-Kóreu..


Mér var hugsað til sönglsins hans Megasar "Ég get ekki tjáð það né túlkað með orðum, hve allt þetta gaman er grátt" eftir heimsókn mína til Norður-Kóreu. Þetta land er ótrúlegt og svo toppaði allt fjöldaleikarnir sem er árleg sýning til að halda uppá afmæli Kim Il Sung þann 15 apríl. Sýningin var haldin á Rungrado 1 Maí vellinum sem tekur 150 þúsund manns í sæti og er því einn sá stærsti í heimi. Í þessari sýningu taka þátt 100 þúsund manns og er samæfingin og gangur sýningarinnar þvílíkur að manni finnst enginn stíga feilspor. Flestir æfa reyndar nærri allt árið fyrir sýninguna. Í bakgrunni vallarins eru svo um 35 þúsund krakkar sem halda á flettispjöldum sem mynda eina stóra mósaík mynd sem skiptist oft og títt með atriðunum. Atriðin tengjast flest sögu N-Kóreu ásamt að vera áróður og dásemd á þeirra eilífa forseta, kæra leiðtoga og landi. Ótrúleg sjón.


Þegar horft er yfir Pyongyang má sjá rísavaxna óklárað byggingu sem líkist píramída. Þetta átti að verða 105 hæða hótel með 7 hringsnúandi veitingastöðum á efstu hæðum. Var hætt að byggja hótelið árið 1990 þar sem meira fjármagn fannst ekki. Er þetta því sem drakúla kastali yfir borginni og hefur stjórnvöldum ekki enn tekist að fela ferlíkið fyrir útlendingum en ókláraða byggingu megum við helst ekki sjá. Það er ekkert smátt í Norður Kóreu, mér varð það fljótlega ljóst.

Óvenju mikil umferð var í Pyongyang í tilefni afmælisins, án gríns. Vanalega eru til að mynda sunnudagar bíllausir dagar en skortur á bensíni í vetur olli því líka að fáir geta notað þá. Flestir nota því sporvagna borgarinnar, neðanjarðarlestina eða fæturnar tvo. Neðanjarðarlestin eru að mestu leiti gamlir vagnar frá Austur Þýskalandi sem þeir keyptu í kringum 1995 á spottprís. Bílar eru flestir gamlir bensar og svo eru 1000 stykki af volvo árgerð 1974 sem sjá má víða. Svíar tala um þetta sem stærsta rán í sögu Svíþjóðar en N-Kórea fékk 1000 sýningareintök send til sín, enda ætlunin að opna bílaverksmiðju í landinu. Úr því varð þó ekki og kóreu menn borguðu aldrei, segja Svíar.


Engin umferðaljós eru í Pyongyang heldur stjórna umferðinni umferðardömur sem sérvaldar eru úr hópi fegurstu stúlkna N-Kóreu. Skóli sem ég hefði ekkert á móti að heimsækja. Þær eru sem vélmenni og stjórna af fagmennsku þótt jafnvel enginn bíll sé sjáanlegur.






Skoðaði svo turn "Juche" fræðanna sem hefur að geyma risa múrstein fyrir hvern dag í þessi 75 ár sem Kim Il Sung lifði. Fór þarna uppí topp fyrir frábært útsýni yfir borgina. Turninn er 170 metrar á hæð og lifir ávallt ljós í kyndlinum þrátt fyrir tíð rafmagnsleysi í borginni. Ég upplifði eitt rafmagnsleysi, borðandi "heitan pott" á veitingastað í borginni. Þið sjáið mig þarna neðst á myndinni.










Ég fór svo að landamærum Suður- og Norður-Kóreu en þá gafst tækifæri til að skoða sveitirnar á leiðinni. Flest allt er unnið í höndum og mátti sjá fólk á ökrunum að bagsa en stöku sinnum mátti sjá uxa draga plóg. Fáir traktorar eru í landinu og heyrði ég sögu af Svía sem býr þarna og hjálpar til við kennslu að rækta landið. Hann er sagður aðstoða 17.000 bændur en þeirra á milli hafa þeir um 15 traktora. Landið lifir því að mestu leyti á mat sem það fær gefins frá Kína og hjálparsamtökum. Á Landamærunum er svo ein stærsta fánastöng í heimi þar sem Norður-Kóreski fáninn blaktir, að sjálfsögðu var fánastöngin höfð aaaðeins stærri en fánastöng þeirra sunnanmann sem blaktir hinum megin við landamærin.


Skoðaði USS Pueblo sem er Bandarískt njósnaskip sem hertekið var árið 1968 í Norður-Kóreskri landhelgi. Einn lést en 82 voru handteknir en sleppt 11 mánuðum síðar. Skipið er til sýnis en því miður fékk ég ekki að hitta hershöfðingjann sem náði því á sitt vald. Leiðsögukonan átti ekki nógu og sterk orð til að lýsa hreysti hans þrátt fyrir að vera orðinn 78 ára gamall.

Skoðaði einnig ýmiss söfn, sigurbogann og fleira. Er því með fjöldann allan af vídeóklippum og myndum ásamt að ég keypti fjöldan allan af sögubókum skrifaðar af vinum vorum í Norður-Kóreu, algjört gull. Gleymi eflaust einhverju og nenni ekki að fara yfir þetta. Þarf að ná lest eftir 2 tíma niður til Xi´an.