Dagurinn hófst á bílferð frá Beirut til Damascus. Farartækið var 30 plús ára Buick af stærstu gerð. 6 voru farþegarnir og ég, sem stærsti maður, sat frammí á milli bílstjórans og dottandi araba. Hnéið var nánast við höku, svo þröngt var og lágt til lofts. Draumurinn var að svona ferðalag færi ég í í henni ameríku, en þetta er það næst besta. Bílstjórinn svigaði á milli akreina á þessum skriðdreka í góðum gír og vorum við bara einu sinni næstum dauðir. Landamæraverðirnir stimpluðu passann minn með miklum látum og fast, enda lítið að gera vegna spennunnar milli landanna.
Sýrland á mér eftir að líka við því fyrsti bíllinn sem ég sá var Lada og var það leigubíll. Ég fékk far með honum og byrjuðum við á því að láta ýta honum í gang, á miðri miklubraut! Hóaði bílstjórinn útum rúðuna á nærstadda vegfarendur og fórnuðu þeir lífi og limum við að koma Kagganum af stað. Er hótelinu var reddað og ég hafði ýtt leigubílstjóranum í gang, rölti ég af stað, eitthvert.. Allt virtist lokað en komið hefur í ljós að nú er frídagur hér í bæ. Fann ég þó schwarma að borða og villtist eftir það.. Náði ég áttum með hjálp táknmáls, ensku með arabískum slettum, tveggja Sýrlendinga og korts í lonely planet bókinni minni, al hamdu lillah! Fylgdu þeir mér á þetta eina internetkaffi sem opið er í dag, að sögn. Nú er bara að rata til baka..