miðvikudagur, janúar 17, 2007

Nei ómögulega...


Hér er einn ákaflega skemmtilegur siður. Hann byggist á því að þegar þér er boðið eitthvað þá neitar þú helst þrisvar sinnum fyrir kurteysissakir, áður en þú samþykkir. Þessu hef ég fengið að kynnast oftar en tvisvar þegar t.d. þvottakallinn harðneitaði greiðslu fyrr en ég bauð í þriðja sinn, við höfðum þó samið um verð daginn áður.
Fyrst varð ég var við þetta er ég sat á flugvellinum í Dubai bíðandi eftir flugi til Tehran. Þar gengu tveir eldri menn að einum af fáum lausum sætum. Tóku þeir þá fyrst við að bjóða hvor öðrum sæti með rökum en því næst gripu þeir um hvorn annan og reyndu að koma í sætið. Stigu þeir þarna íslenska glímu þar til einn gaf sig og settist, nema augnabliki síðar þá stendur hann upp og krefst þess að viðmælandinn setjist til þess eins að gefa sig og setjast aftur (sjáið fyrir ykkur Tryggva Ól og Gulla Koll). Aftur varð ég vitni að þessu í Shush. 4 vinir, um fimmtugt eru við að ganga inná litla veitingastaðinn þar sem ég sit og snæði kjúklingakebab beint á móts við dyrnar. Þá hefst fyrsta lota þar sem þeir bjóða hver öðrum að ganga inn fyrst en náttúrulega neita allir. Í annari lotu þá er komið að því að ýta á bak á hver öðrum og reyna að koma inn ásamt miklum kappræðum þar til þeir sameinast eiginlega um einn og ýta honum inn þrátt fyrir að viðkomandi neiti með handapati og orðum. Þá loks er einn er farinn inn þá fylgja hinir á eftir.