laugardagur, janúar 13, 2007

flug og flug

Á síðustu 3 dögum hef ég flogið frá London til Zurich, Zurich til Dubai, Dubai til Tehran og svo frá Tehran til Ahvaz sem er iðnaðarborg hérna í vestanverðu Íran, ekki langt frá landamærunum að Írak.

Dubai er skrýtin borg, þar virðist hver ný bygging sem rís þurfa að vera stærri en byggingin sem byggð var á undan. Þannig keyrir maður í gegnum IKEA skrímsla hverfi þar sem hver glerhöllin raðar sér við hlið annarar, þó ekki sé nema um dekkjasölu að ræða. Sannkölluð draumaborg Ingabjörns bróður þar sem á hverju strái eru nýnýbónaðir bílar af dýrustu gerð sem rúnt hér um með skyggðar rúður allan hringinn. Svo er bensínið nánast gefins.. Minn óbónaði Opel mundi ekki spjara sig í þessu umhverfi, það er ljóst. Ég sný hingað aftur eftir 20 daga, gefum henni sjéns.

Tehran stopp mitt var stutt. Birtist þar um 1 að nóttu og tók þá við að finna mér hótel. Hér hefði pabbi haft gaman af að vera því útum allt eru eldgamlar bíldruslur frá Sovét sem haldið er gangandi á svo undraverðan hátt að aðdáun vekur. Saman hjálpast þessar bifreiðar við að gera borgina að einni þeirri menguðustu í heimi. Leigubíllinn minn frá hinum nýja og glæsilega Imam Khomeini flugvelli var Lada 1300 týpan. Á leiðinni ræddi ég við leigubílstjóra minn um stórkostlegan knattspyrnuferil Ali Daei í Þýskalandi á milli þess sem ég æfði framburð á hinum ýmsu orðum í farsa. Við áttum það sameiginlegt að ensku kunnátta hans var jafn mikil og farsa kunnátta mín.
Daginn eftir, á leið minni útá innanlandsflugvöllinn þá þurfi að fara yfir fjölmörg gatnamót þar sem engin ljós eru. Hraðinn á umferðinni er svona einsog hann gerist bestur á laugarveginum. Á þessum gatnamótum þá fara allar akreinar útá í einu, svo er bara flautað og reynt að troða sér áfram meðan bílar frá vinstri og hægri reyna það einnig. Ég þarf að taka þetta upp á myndband..