laugardagur, febrúar 03, 2007

Íranir eru ekki arabar, heldur aríar.


3000 km að baki í Íran og hef ég flakkað um sögusvið Mesapótamíu, Persíu og Írans. Þjóðin er gríðarlega ung, 70% eru undir 30 ára aldri og gaf forsetinn mikil loforð til þessarar kynslóðar fyrir kosningarnar en fá hefur hann þó staðið við svo maður finnur fyrir gríðarlegri óánægju í landinu.
En hjálpsemi og gestrisni fólks er hreint ótrúleg. Mér hefur verið boðið út að borða og ókunnugir hafa verið búnir að borga fyrir mig matinn er ég hef ætlað að borga. Mér hefur verið boðið inná heimili fólks í mat og gistingu, ásamt því að hafa verið fylgt um borgi og bæi án nokkurrar þóknunar.
Fólk hefur komið upp að mér til að spjalla um allt og ekkert og skiptir engu hvort ég sé í leigubíl, á veitingahúsi eða koma af salerninu. Umræðuefnin hafa verið allt frá stríðinu við Íraka, knattspyrnu, ástandið fyrir og eftir byltinguna, trúarbrögð, áfengi, forsetann, réttindi kvenna, tónlist, bandaríkin, kjarnorku, rapp, atvinnumál, konur, tísku og hvernig trúarofstækismenn frá borgunum Qom og Mashhad komast til valda á kostnað fólks með menntun og hæfileika..
Íranir eru líklega einnig sú þjóð sem ég hef kynnst sem kemst hvað næst grobbi Íslendinga um að flest hér er sé það fallegasta í heimi.
Annars á ég nánast heimboð í hverri einustu borg og ég þarf lítið að hafa áhyggjur af gistingu er ég kem hingað aftur..